Við heitum Lisa Boije af Gennaes og Þórarinn Jónsson og erum bændur á bænum. Þórarinn er alinn upp á Hálsi en Lisa er frá Bern í Sviss. Við höfum bæði gaman af því að borða góðan mat, og sem betur fer er Lisa líka afbragðs kokkur.
Eins og gefur að skilja er oft nautakjöt á boðstólum á heimilinu. Það hefur því safnast töluverð þekking um verkun, eldun og eiginleika nautakjöts í öllum fjölbreytileika þess. Þessari þekkingu reynum við að miðla til viðskiptavina okkar í gegnum verslunina á bænum.
Lisa er vön því frá Sviss, að það sé sjálfsagt að versla beint af bónda, og því að það sé gott úrval, hreinlega allt af skepnunni. Það var því eðlilegt að fara sömu leið hér. Þess vegna er hægt að koma til okkar í verslunina og fá hina ýmsu bita sem ekki eru í boði annarsstaðar.
Við viljum hafa allt í boði , frá grönum að hala (nose to tail) vegna þess að það eru svo mikill fjölbreytileiki í bitum af nautinu í bragði og áferð og ekki síst til að virða skepnuna.