ROASTBEEF
- 1,4 kg. Innra-læri
- Piparblanda ( gott er t.d. svartur pipar og rósapipar, smá hvítur pipar) en má líka sleppa
- Flögusalt
- Kjöthitamæli
- Olía/ fita til að steikja
Takið kjötið úr ískápnum 1-2 klukkustundir áður en það er eldað, þannig að það er við stofuhita. Þurrkið það með eldhúspapír. (Þegar kjötið er við stofuhita komum við í veg fyrir að kjötið eldist óreglulega. Kjötið er þurkkað til þess að það myndist enginn gufa á meðan við erum að steikja það. Við viljum steikja kjötið en ekki sjóða það.
Hitið ofninn á 120° c.
Ef það er notuð piparblanda , þá er Innralærinu fyrst velt upp úr því og síðan er vöðvanum lokað snöggt á öllum hliðum á mjög heitri pönnu.
Því næst er vöðvinn settur inní ofn með kjöthitamæli sem næst í miðju vöðvans. Þegar kjöthitamælirinn sýnir 50° celsíus er gott að taka vöðvann út og láta hann standa í amk. 20 mínútur undir álpappír til að hvíla. Þannig fer kjötsafi aftur inní allt kjötið og verður afar safaríkt. (Álpapírinn má ekki verið of þétt vafið í kringum vöðvann, annars myndast gufu og við viljum hafa fallega og stökka skorpu, best er að leggja það bara aðeins létt á.) Að þessu loknu er vöðvinn orðinn að dýryndis Roastbeef. Það má að sjálfsögðu líka láta Roastbeef kólna alveg og njóta þess þannig. Það er síðan skorið í mjög þunnar sneiðar.
Mikilvægt er að fylgjast vel með kjöthitamælinum. Hann gengur fyrst svolitið hægt en allt í einu er hann mjög fljótur að stíga. Það er okkar reynsla að 50° sé akkúrat rétt til að fá fallegan lit og að vöðvinn sé ekki ofeldaður. Innralæri er mjög fitulítill vöðvi og verður þurr við ofeldun, lykillin er " medium rare".
Við bjóðum upp á allavega tvo möguleika í vöðvum fyrir Roastbeef sem við mælum með. Fyrst ber að nefna innralæri frrrrábært hráefni fyrir Roastbeef, klumpur er svo ódýrara hráefni en lítið síðra. Bretar nota Entrecote eða Rib eye í Roastbeef, það er náttúrulega mun dýrara hráefni en einnig feitara og safaríkara kjöt.
Gott er að borða Roastbeef úr Innra-læri á einfaldan hátt, t.d. með soðnum kartöflum, salati, steiktum lauk og remoulaði. Klassísk væri náttúrulega að bera kjötið fram með piparrótasósu sem má einfaldlega gera með því að blanda saman þeyttum rjóma og fínrifinni ferskri piparrót (varlega, hún er mjög sterkt!). Einnig væri hægt að blanda saman sýrðum rjóma og smá mayó saman við piparrót.
Ef maður á afgang af Roastbeef, getur maður verið enn hamingjusamari af því að þá er hægt að búa til Roastbeefsamloku daginn eftir!